Ísland hernumið
Átta mánuðir voru liðnir af seinni heimsstyrjöldinni þegar Bretar hernámu Íslands aðfaranótt 10. maí 1940. Þessa fyrstu mánuði stríðsins höfðu Þjóðverjar verið í mikilli sókn, hernumið hluta Póllands, Danmörk og Noreg. Þá vissu menn að innrás vofði yfir öðrum löndum Evrópu og sama dag og breski herinn kom til Íslands lét þýski herinn til skara skríða og hertók Belgíu, Holland og Lúxemburg. Hernám Breta var til að koma í veg fyrir að Ísland félli undir þýsk yfirráð en Þjóðverjar höfðu sýnt landinu áhuga á árunum fyrir styrjöldina vegna hernaðarlegs mikilvægis þess í tengslum við siglingar um Norður-Atlantshaf. Um 2000 hermenn voru í herliði Breta en ári síðar voru þeir orðnir um 25 000, dreifðir í bækistöðvum um allt land en flestir í Reykjavík.
Stríðsárin á Reyðarfirði
Á Reyðarfirði voru allt að 4000 hermenn á árum heimsstyrjaldarinnar síðar, breskir, kanadískir, norskir og bandarískir. Þótt fjöldinn hafi verið enn meiri á öðrum stöðum á landinu voru hlutföllin líkast til hvergi jafn yfirþyrmandi en á þessum árum voru Reyðfirðingar um 300 talsins. Ekki var til húsnæði til að hýsa allt þetta fólk og því spruttu upp braggahverfi víðsvegar um þorpið og fjörðinn. Rismestu húsin voru tekin hernámi og þar hreiðruðu yfirmenn um sig. Hvert sem litið var voru hermenn að störfum og leik og heimamenn hurfu inn í mergðina.
„Blessað stríðið“
Á svipstundu breyttist Reyðarfjörður úr viðburðalausu smáþorpi þar sem ríkti viðvarandi fátækt og atvinnuleysi í lifandi þorp þar sem fátt skorti og engin furða að heimamenn hafi oft talað um „blessað stríðið“. Allt í einu var næg vinna fyrir alla sem vettlingi gátu valdið og til Reyðarfjarðar flykktist fólk í atvinnuleit. Menningarlífið reis sem aldrei fyrr: Bíó, kaffihús, veitingastaðir, böll, leiksýningar og aðrar samkomur urðu daglegt brauð fyrir fólk í litlu sjávarþorpi sem áður gerði sér að góðu þorrablót og jólaball.
Skuggi styrjaldarinnar
Styrjöldin varpaði líka skugga sínum yfir Reyðarfjörð. Það var ekki að ástæðulausu sem loftvarnarbyssum og fallstykkjum var komið fyrir því þýskar flugvélar lögðu oft leið sína inn í Reyðarfjörð í njósnaferðum. Þá fóru loftvarnarflautur af stað og rauð hættuflögg voru dregin að húni um leið og byssur setuliðsins byrjuðu að gelta að óboðnum gestum. Þá þustu Reyðfirðingar í loftvarnarbyrgin sem voru víða í þorpinu.