|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
Hernámsárin á Reyðarfirði
Í engu byggðarlagi hérlendis var á árum seinni heimsstyrjaldarinnar jafn margt hermanna í hlutfalli við heimamenn eins og á Reyðarfirði. Þar voru að staðaldri um og yfir eittþúsund dátar frá miðju sumri 1940 til vors 1943. Íbúar á Búðareyri voru í árslok 1940 aðeins 321 talsins og erlendir hermenn þessi ár því þrefalt fleiri en þorpsbúar. Þann 1. júlí 1940 hafði skip með breska herflokka komið til Reyðarfjarðar og Eskifjarðar, samtals um 300 manns sem skiptust nokkurn veginn jafnt á staðina. Fáum dögum síðar gerði hins vegar mikið vatnsveður og tók af brúna yfir Eskifjarðará. Varð það til þess að hermenn voru fluttir frá Eskifirði á Reyðarfjörð. Aðeins var um fámennan flokk setuliða sem varð eftir á Eskifirði. Stjórnendur hersveitanna komu sér fyrst fyrir í steinhúsinu Grímsstöðum á Reyðarfirði en fluttu sig um haustið í gistihús KHB. Vorið 1941 var yfirstjórn hersveita á Austurlandi flutt frá Seyðisfirði til Reyðarfjarðar. Á Reyðarfirði kom setuliðið sér fyrir í aðgreindum herbúðum (camps) á mörgum stöðum á svæði sem náði frá Framnesi inn fyrir Geithúsaá. Stórskotaliðssveit hafði aðstöðu við Geithúsaá og strandvarnarbyssum var komið fyrir á Sandskeiði neðan vegar milli Framness og Sómastaða. Í sjálfu þorpinu og útjaðri þess risu margar skálaþyrpingar, sem fjölgaði og færðust út einkum eftir að um 1200 bandarískir hermenn leystu bresku liðsveitirnar af hólmi í september 1942. Komu Bandaríkjamenn sér upp vel búnum herspítala með 75 legurúmum og 64 manna starfsliði, þrefalt stærri en Bretar höfðu áður byggt. Íslensk veðrátta, einkum sviptibyljir og fannfergi að vetrarlagi, kom herliðinu í opna skjöldu. Þannig hurfu heilu skálarnir út í veður og vind og ekki reyndist unnt að halda vegasambandi opnu milli bækistöðva sökum fannfergis, jafnvel svo vikum skipti. Mesta manntjónið varð þegar herflokkur á æfingu lenti í hríðarbyl og hrakningum á Eskifjarðarheiði í janúar 1942. Alls hvíla í kirkjugarðinum á Reyðarfirði átta breskir hermenn sem fórust í óveðrinu. Bandaríkjamenn fluttu hins vegar ávallt lík þeirra sem hér týndu lífi í herþjónustu til síns heima. Auk breskra og bandarískra hersveita voru um tíma allfjölmennar kanadískar sveitir til aðstoðar á Reyðarfirði. Komu Kanadamennirnir sér fyrir í búðum rétt innan við þorpið og þótti heimamönnum þeir nokkuð fyrirferðarmiklir. Norðmenn komu einnig talsvert við sögu á Reyðarfirði, fyrst sem skíðakennarar við að þjálfa Breta undir vetrarhernað en síðar með eigin flugsveit sem hóf starfsemi með fjórum Northrop-sjóflugvélum haustið 1941. Bjuggu Norðmenn um 50 talsins um sig í Norska kampi ofan Heiðarvegar en höfðu aðstöðu fyrir flugvélarnar í fjörunni utan við kaupfélagsbryggjuna á Búðareyri. Annaðist flugsveitin eftirlit með skipum og óvinaflugvélum með ströndum fram svo og kafbátaleit. Þegar í júlí 1940 hófu Bretar könnunarflug með tveimur flugbátum úti fyrir Austfjörðum og höfðu þeir aðstöðu utan við Bakkagerðiseyri. Það voru ekki síst flugvélarnar og loftvarnaræfingar sem vöktu athygli manna, svo og viðureignir við þýskar flugvélar sem í vaxandi mæli gerðu vart við sig þegar leið á sumarið 1942. Tengdust ferðir þeirra sókn Þjóðverja gegn skipalestum bandamanna á leið til Múrmansk. Annars miðaðist viðbúnaðurinn hérlendis lengi vel við að mæta hugsanlegri innrás Þjóðverja í landið. Þegar kom fram á árið 1943 var það mat bandaríska herráðsins að Þjóðverjar væru ekki lengur líklegir til öflugra árása eða til að gera innrás í landið. Hófst brottflutningur bandaríska herliðsins frá Reyðarfirði þá um sumarið, strandavarnarbyssur við Framnes voru teknar niður, bröggum var lokað og í september 1943 fóru síðustu hermennirnir frá Reyðarfirði. Herskálarnir stóðu eftir mannlausir þar til stríðinu lauk en þá voru eignir setuliðsins seldar hæstbjóðendum. Enn í dag má sjá bragga frá þessum tíma í sveitum og þorpum austanlands.
|
|
|
|
|
|
|
|
|